Hera fæddist 17.september 2020 eftir 63 tíma fæðingu. Tæplega 3 dagar af hríðum. Þetta var byrjunin á mjög löngu og ströngu ferli sem ég er ennþá að kljást við núna.
Áður en ég átti hana vissi ég að fyrstu vikurnar eftir
fæðingu yrðu erfiðar, svefnlausar og ég gæti upplifað sængurkvennagrátur og
jafnvel fæðingarþunglyndi. Ég einbeitti mér mun meira að því að undirbúa mig
fyrir líkamlega heilsu eftir fæðingu. Líkamleg heilsa mín eftir fæðinguna var
frábær, af mínu mati. Allavega féll hún algjörlega í skugga af andlegri vanlíðan.
Frá því að ég fékk hana í fangið vissi ég strax að það væri
eitthvað að hjá mér. Ég vissi strax að ég væri ekki að upplifa þessa alsælu ástartilfinningu
sem foreldrar lýsa þegar þau fá barnið sitt í hendurnar. Ég fann léttir að þetta væri búið og eins
og ég hefði fengið bikar í hendurnar. Hún fæddist og byrjaði strax að gera hljóðin
sín, hljóðin sem yrðu eins og þyrnir í taugaendum mínum næstu vikurnar. Eðlileg
nýburahljóð, ef þið vissuð það ekki þá er sjaldan þögn í kringum nýbura. Nýburar
stynja mikið, allskonar rembingshljóð og bras í gangi. Þau byrja að gera þessi
hljóð í leginu, fullkomlega eðlileg hljóð og mismikil barna á milli.
Ég var örmagna eftir fæðinguna, enda varla búin að sofa í 3
daga. Ég fékk ljósmæðurnar til þess að taka hana í nokkra tíma svo ég gæti sofið
smá. Fullkomlega eðlilegt en mér fannst þetta vera mín fyrstu mistök sem móðir.
Fyrstu 2-3 vikurnar eftir fæðinguna voru pynting. Mér hefur
aldrei liðið jafn illa og þá. Ég hafði enga tengingu við hana, ég gat varla
horft á hana. Mér fannst þægilegast að horfa á hana í gegnum myndavélina á
símanum mínum. Hún var og er krefjandi barn, ég var með hana í fanginu allan sólarhringinn
nánast. Ég svaf ekki fyrstu 1,5 vikuna. Þetta eru engar ýkjur, max 10 mín í
senn kannski 1-2x yfir sólarhringinn. Hluti af þessu var ekki það að hún var
krefjandi, heldur bara þessi ýktu taugaviðbrögð sem ég upplifði. Ég gat ekki
farið úr herberginu sem hún var í, hún þurfti að koma með mér allt. Ég var ekki
með tilfinningalega tengingu, heldur líkamlega. Eins og segull.
Viðvarandi neyð var tilfinningin sem ég fann, eins og byssu
væri miðað að mér allan sólarhringinn. Hvert einasta litla hljóð sem hún gerði
var þess valdandi að ég fékk náladofa í allan líkamann nema 1000x verra. Lífið
var tilgangslaust, ég kallaði yfir mig og makan minn helvíti á jörðu. Ég þráði að
verða mamma, hvernig gat ég verði svona heimsk.
Ég borðaði ekki, léttist miklu meira en ég hefði átt að gera
á þessum 2-3 vikum. Mér bauð við öllum mat.
Ég grét allan sólarhringinn, yfir því að líða svona, yfir
því að langa að fara frá þeim, yfir því að hún væri svona krefjandi, yfir því
að ég væri svona hræðileg móðir, undan þessari gríðarlegu ábyrgð og sektarkennd.
Kvöldin voru verst af því þá var nóttina að koma, ég sat iðulega við
kvöldmatarborðið og grét meðan ég reyndi að pína í mig mat.
Ljósmóðirin mín vissi af einhverju leiti hvernig mér liði.
Ég þorði ekki að segja henni hversu hræðilegt þetta væri í raun og veru. Hún sendi
beiðni á sálfræðing fyrir mig en það var biðlisti. Ég endaði á bráðamóttöku geðsviðs
þegar Hera var 1,5 vikna eftir að hafa fengið það sem ég myndi lýsa sem
taugaáfalli. Líkaminn minn hristist, ég var farin að bakka inn í svarthol sem mér
fannst mjög raunverulegt. Ég hugsaði að ef ég væri dýr þá myndi bóndinn sem
ætti mig skjóta mig til þess að linna kvalirnar. Ég grét allan tímann, frá því
við ákváðum að ég myndi fara á geðdeildina og þar til ég kom heim. Hluti af mér
vonaðist eftir því að ég yrði lögð inn, að þau myndi svæfa mig og taka Heru af
mér. Ég mætti gríðarlegum skilning og hlýju þarna, fékk kvíða og svefnlyf og fór heim. Það var ofboðslega erfitt
fyrir mig að samþykkja það að taka lyf því mér fannst ég vera að eitra fyrir
dóttur minni. Það væri aldeilis toppurinn á því að vera slæm móðir, ég tengdist
ekki barninu mínu og ég var byrjuð að eitra fyrir henni í þokkabót með þessum
lyfjum.
Þegar ég náði að sofa aðeins þá fóru hlutirnir að lagast
örlítið. Svefn var samt sjaldan og lítið í einu, sem er eðlilegt með nýbura. Líðan
mín fór mjög hægt batnandi en samt kom vanlíðan í bylgjum. Ég er ennþá ekki
orðin góð og efast um að ég muni einhverntímann verða eins og ég var, lífið
verður aldrei eins aftur.
Tengslin við dóttur mína mynduðust ekki fyrr en hún varð 4
mánaða. Þetta eru engar ýkjur, ég hugsaði bara um hana fram að þeim tímapunkti
af því ég átti að gera það.
Maður hugsar kannski, það er alveg hægt að lifa af 2-3 vikur
af lamandi vanlíðan. Já, það er hægt. Ég gerði það. En ég verð aldrei söm eftir
það. Að vita að þessar tilfinningar eru til finnst mér hræðileg tilhugsun. Heilinn
minn gerði mér þetta, af vissu leiti held ég að ég muni alltaf lifa við einhverskonar
áfallastreituröskun eftir þetta. Án þess að ég hafi verið greind með það.
Ég fékk greininguna fæðingarþunglyndi og kvíða. Síðan Hera
var 3ja vikna hef ég verið að hitta fagfólk, fyrst miðstöð foreldra og barna og
því næst sálfræðing á heilsugæslu.
Mig langar ekkert sérstaklega að deilda þessari upplifun á veraldrarvefnum, þetta er viðkvæmt og svo ný búið að gerast. Eina ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa færslu er fyrir
þig sem hefur þurft að upplifað þetta, munt upplifa þetta eða ert í storminum
af þessu núna. Þá vil ég að þú vitir að þetta verður betra en þú verður að leita þér hjálpar. Þér mun einhverntíman
líða betur. Ef þú upplifir ekki tengingu við barnið þitt þá er eitt víst, hún
mun koma. Það er það sem var alltaf sagt við mig, ég var ekki alltaf viss um að
ég vildi tenginguna. Ég var ekki viss um að ég væri nógu sterk til að þola
hana. En hún gerði allt betra, ekki mikið betra. Bara betra.
Ef þú ert í þessu núna þá máttu hafa samband við mig, ég vil
hjálpa þér ef ég get það.
Ekki hika við að senda á mig.
Ef þú ert í þessum sporum núna og þú þarft hjálp núna þá mæli ég með að þú leitir á þína heilsugæslu eða bráðamóttöku geðsviðs.
Þakkir.
Þetta tímabil er að líða hjá. Ég er svo þakklát fyrir fólkið
í kringum mig sem vissi af þessu. Ég hringdi oft á dag í mömmu mína og bara
grét. Maðurinn minn, sem er og var í fullum skóla á þessu tímabili, gerði sitt
allra besta til að stappa í mig stálinu. Ég sagði oft við hann að ég hefði átt
að vera pabbi en ekki mamma, ég sé núna að það er ekki endilega auðveldara að
vera pabbi þegar mamman er í molum. Hann bar okkur báðar á þessu tímabili og er
ég ævinlega þakklát að hafa valið hann til undaneldis.
Sérstakar þakkir fá Hermína ljósmóðir og Kormákur
sálfræðingur. Ég vil ekki vita hvar ég væri án þeirra.
Síðast en ekki síst vil ég þakka Heru minni, fyrir að vera duglegasta
og þrjóskasta barn sögunnar.