Pages

Tuesday, November 7, 2017

Krabbamein í eggjastokkum

FALDA MEINIÐ


Þetta snertir mig sérstaklega af því að ég er BRCA2 Arfberi. Sem þýðir að ég er í meiri hættu á að greinast með krabbamein í kvenlíffærum. 
Oftast, ekki alltaf, finnst mér ég vera heppin að vita af þessum erfðafræðilega þætti hjá sjálfri mér. Vegna þess að ég fer í reglubundið eftirlit á brjóstum og eggjastokkum. Árleg segulómun, árlegt mammogram ásamt ómskoðun á brjóstum og svo heimsókn til kvennsjúkdómalæknis árlega þar sem ég fer líka í blóðprufu. 

Eftirlitið hjá kvensjúkdómalækni er það sem ég er ánægðust með, við erum fáar spenntar fyrir því að fara til kvennsjúkdómalæknis og því er hætta á því að við förum of sjaldan.


Krabbamein í eggjastokkum er yfirleitt einkennalaust á byrjunarstigum sjúkdómsins. Eggjastokkarnir eru lítil líffæri sem hafa pláss í kringum sig til þess að stækka án þess að þrýsta á önnur líffæri.
Vegna þess að æxlið er lengi einkennalaust þá hefur það fengið tíma til þess að vaxa og dreifa sér í önnur líffæri, sjúkdómurinn er því oft orðinn langt genginn við greiningu.


Helstu einkenni:

Kviðverkir

Þyngdartilfinning í kviðarholi

Þaninn kviður

Tíð þvaglát

Óreglulegar hægðir

Ógleði

Óeðlilegt þyngdartap


Óreglulegar blæðingar geta verið einkenni af krabbameini í eggjastokkum en það er sjaldgæfara. Þessi einkenni eiga ekki endilega beina tengingu við kvenlíffærin í huga okkar flestra. 

Um það bil 15 konur á ári hverju greinast með þennan sjúkdóm og meðalaldur við greiningu er 65 ára. Það er sjaldgæfara að konur greinist undir 50 ára en það getur gerst. Aðeins 55% kvenna eru lifandi fimm árum eftir greiningu. 

Konur fara yfirleitt fyrst í skurðaðgerð og seinna í lyfjameðferð.
Sjúkdómurinn tekur sig upp aftur í 70-95% tilvika hjá þeim konum sem eru með langt genginn sjúkdóm við greiningu. En þær konur sem greinast með sjúkdóm á byrjunarstigi eru bara í 10% áhættu á að sjúkdómurinn taki sig upp aftur.

Þetta gefur að skilja að það er mjög mikilvægt að ná sjúkdómnum snemma!
En aðeins EIN af hverjum FJÓRUM kvenna greinast með sjúkdóminn á byrjunarstigum. 

Við konur þurfum að fylgjast með þessum einkennum og leita til kvensjúkdómalæknis ef einkennin láta á sér bera!

Skimun fyrir þessum sjúkdóm er ekki talin geta borið árangur, það er ekki til nógu skilvirk leið til þess ennþá. Samanborið við skimun vegna leghálskrabbameins þar sem hægt er að taka sýni. 
Hægt er að mæla ákveðinn æxlisvísi, Ca-125, sem getur verið hækkað við krabbamein í eggjastokkum. Æxlisvísirinn er mældur með blóðprufu, mælingin getur verið óeðlileg af öðrum ástæðum heldur en vegna krabbameins í eggjastokkum og er því ekki fullnægjandi skimun.
Vegna þess að ég er í áhættu á að fá þetta krabbamein þá er Ca-125 mælt hjá mér árlega og ef það er hækkað yrði það þá skoðað nánar.

Ég vona innilega að þetta geti verið vitundarvakning fyrir ykkur allar, vera meðvitaðar um þessi einkenni og jafnvel kíkja til kvensjúkdómalæknis í skoðun og láta taka strok úr leghálsi í leiðinni!



Hægt er að lesa meira um þennan sjúkdóm á vef krabbameinsskráar, hér.

Ef þú vilt læra meira um BRCA stökkbreytingarnar þá er það hægt hér.

HEIMILDIR

https://ocrfa.org/patients/about-ovarian-cancer/recurrence/

http://www.krabbameinsskra.is/resources/pdf/krabbamein/krabbamein_a_islandi_2012-krabbamein_i_eggjastokkum.pdf

http://www.brjostakrabbamein.is/minnkadu-likurnar/krabbamein/munnmaeli-stadreyndir/

No comments:

Post a Comment